Er tiltektin í Líffeyrissjóðunum afstaðin?

Það hefur orðið mönnum mjög ljóst á undanförnum mánuðum að ofureyðsla og peningasukk sé víða í stjórn margra Lífeyrissjóða í landinu.  Er ekki fyrsta skref að taka þar til og gera hreint fyrir dyrum.
Er ekki tími kominn til að hagræðing í rekstri lífeyrissjóða verði tekin til umræðu og nýtt skipulag innleitt þar sem lífeyrissjóðum yrði fækkað eða allavega sameiginlegt rekstrarform sem mun minnka allan kostað við heildarrekstur lífeyrissjóðanna. Sparnaður þar gæti stutt heilbrigðisgeirann þannig að niðurskurður þar yrði minnkaður.
Leggjum flottræfilsháttinn niður og tökum upp mannvirðingarháttinn, það er betur við hæfi.
Eigum við ekki að skoða heildarmyndina og samtengingar lífeyrissjóða við heilbrigðiskerfið og sjá til þess að þeir sem á þurfa að halda fái þá þjónustu og umhyggju sem þeir eiga skilið. 
Er sú uppröðun verkefna sem nú er verið að huga að sú sem best kemur út í heildarstefnu atvinnuuppbyggingar landsins.  Áður en lengra er haldið, hvernig lítur heildarstefnan út, hvert er verið að fara?  til þess að við, bjartsýnir Íslendingar getum lagt hönd á plóginn er þetta grundvallaratriði, HVERT Á AРHALDA?

mbl.is Setja 100 milljarða í framkvæmdir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Bragi Sigurðsson

Ég er sammála þér um það að það beri að reka lífeyrissjóðina á sem hagkvæmastan hátt án alls sukks.

En þegar kemur að tali þínu um heilbrigðisgeiran og tengingu hans við lífeyrissjóðina þá er ég ekki með á nótunum.

Áttu við að lífeyrissjóðirnir eigi að fara að leggja peninga í heilbrigðiskerfið? Reka sjúkrastofnanir á eigin spítur, eða styrkja ríkið í því skyni að það geti rekið heilbrigðiskerfið með sóma?

Lífeyrissjóðirnir eru eingin Byggðastofnun, hjálparstofnun eða AGS.

Mér sýnist augljóst að enn og aftur eigi að fara að gambla með lífeyrissjóðina og setja til hliðar það aðalhlutverk, og reyndar eina hlutverk þeirra samkvæmt lögum, sem er að ávaxta peninga okkar lífeyrissjóðseigenda á sem tryggastan hátt.

Í Stöðugleikasáttmálanum má finna eftirfarandi:

Í grein 4. Framkvæmdir til að stuðla að aukinni atvinnu sáttmálanum stendur m.a. þetta (og hef ég strikað undir og feitletrað það sem mér þykir athyglisverðast): "Ríkisstjórnin gangi til samstarfs við lífeyrissjóði um að þeir fjármagni stórar framkvæmdir sbr. minnisblað vegna verklegra framkvæmda dags. 16.06.2009 o.fl. með sérstakri fjármögnun. Stefnt skal að því að viðræðum ríkisstjórnar og lífeyrissjóða verði lokið fyrir 1. september 2009."

Það skal með öðrum orðum hafa hraðan á og vera búið að komast í þessa peninga að tveimur mánuðum liðnum.

Í grein 9. Málefni lífeyrissjóða stendur hins vegar: "Að óbreyttu hvílir sú lagaskylda á sjóðunum að endurskoða fjármögnun þeirra og/eða skerða réttindi sjóðsfélaga. Aðilar eru sammála um að gera ráðstafanir til að unnt sé að fresta slíkum ákvörðunum að sinni á meðan unnið er að heildarendurskoðun."

Þetta verður varla skilið öðru vísi en að menn séu meðvitaðir um lagaskyldu sjóðanna en séu allir af vilja gerðir að trufla það og tefja að þeir sinni henni. Og hvenær lagaskylda er lagaskylda og hvenær hún "hvílir að óbreyttu" þætti mér fróðlegt að vita og hver munurinn er á lagaskyldu og "lagaskyldu að óbreyttu". Þetta þykir mér vægast sagt heldur skuggaleg áform.

Þetta hafði Arnar Sigurmundsson, formaður Landssamtaka lífeyrissjóða að segja í ávarpi á aðalfundi Landssamtakana nú í vor:

"Stjórnvöld óskuðu eftir aðkomu lífeyrissjóðanna við upphaf bankakreppunnar og fóru fram fundir forystusveitar lífeyrissjóðanna með nokkrum ráðherrum í Ráðherrabústaðnum föstudaginn 3. október og laugardaginn 4. október sl. Erindi stjórnvalda var að óska eftir því að sjóðirnir flyttu heim um 50% af erlendum eignum sínum að verðmæti á þáverandi gengi um 250 milljarðar króna. Boðað var til mjög fjölmenns fundar á vegum LL fyrr á laugardeginum áður en haldið var á fund ríkisstjórnar nýjan leik. Sjóðirnir tóku vel í þessa málaleitan stjórnvalda að uppfylltum ákveðnum skilyrðum í ályktun. Ekki reyndi þó á þennan velvilja lífeyrissjóðanna þegar í ljós kom að morgni mánudagsins 6. október sl. að vandi fjármálafyrirtækjanna var mun meiri en reiknað hafði verið með."

Arnar og kó voru semsagt tilbúnir í -og virðist þykja leitt að hafa ekki fengið að framkvæma þennan "velvilja"- að taka heim 250 milljarða og henda þeim í bankasukkið rétt áður en allt hrundi og gengi krónunar féll með 50% sem hefði þýtt að 125 milljarðar af þessum peningum hefðu horfið á einu bretti. Og þessir sömu menn sitja enn við stjórnvölinn í lífeyrissjóðunum og virðast ekki sjá neitt athugavert við þetta heldur á að grípa það tækifæri sem gefst núna til að henda lífeyrissjóðnum okkar í atvinnubótavinnu í hagkerfi sem er hrunið og með ónýtan gjaldmiðil, sem eingöngu er hlegið að erlendis og fæst ekki einu sinni skipt.

Jón Bragi Sigurðsson, 29.6.2009 kl. 18:09

2 Smámynd: Gerður Pálma

 Takk fyrir góð og upplýsandi skrif.

'En þegar kemur að tali þínu um heilbrigðisgeiran og tengingu hans við lífeyrissjóðina þá er ég ekki með á nótunum.

Áttu við að lífeyrissjóðirnir eigi að fara að leggja peninga í heilbrigðiskerfið? Reka sjúkrastofnanir á eigin spítur, eða styrkja ríkið í því skyni að það geti rekið heilbrigðiskerfið með sóma? '

Það er öldungis rétt hjá þér að lífeyrissjóðirnir eiga ekki að styrkja heilbrigðiskerfið.  Ég var engan vegin skýr með hvað var í mínum huga. 

Fólkið í landinu verður að krefjast þess að heilbrigðiskerfið sé rekið með sóma og finna leið til að byggja upp nýta kunnáttu sem er fyrir hendi en ekki skera niður og missa lækna og hjúkrunarfólk úr landi.  

Ef lífeyrirsjóðirnir væru reknir með sóma hefðu þeir meira svigrúm og gætu fjárfest í fyrirtækjum sem styðja við heilbrigðisþjónustu landsins á beinan og óbeinan hátt t.d. fjárfesta í ´heilsuhótelum´ og styrkja þannig bæði heilbrigðisþjónustu landsmanna sem og laða að heilsuferðamenn. 

 Það er MJÖG stór hópur Evrópubúa sem er komin á eftirlaun og eyða miklu í ´heilsuferðalög´ISLAND sjálf er vörumerki hollustu og hreinleika, en við höfum ekki byggt upp neitt til þess að taka á móti fólki í þennan geira. Þarna er stórkostlegt fjárfestingatækifæri fyrir t.d. Lífeyrissjóðina sem myndi styrkja þá sjálfa.

Með því að finna markmið sem miða að uppbyggingu innanlands er verið að styrkja atvinnuvegina og byggja upp bjartsýni og sjálfstraust þjóðarinnar. 

Gerður Pálma, 5.7.2009 kl. 11:58

3 Smámynd: Jón Bragi Sigurðsson

Jú ég er sammála þér um að þetta eru ágæt verkefni sem þú stingur uppá og gæfu meiri gjaldeyristekjur en brýr og göng. Og eins og þú segir er til markaður fyrir svona starfsemi. Það er fullt af sæmilega fjársterku fólki sem vill gjarnan fara til lands eins og Íslands. Fólk sem hefur ferðast mikið og er orðið hundleitt á sólarströndum og þess háttar og vill sjá eitthvað nýtt.

Mínar áhyggjur snúast mest um það að lífeyrissjóðirnir fari alls ekki útí neinar vafasamar fjárfestingar. Það er nóg komið að slíku. Þeir eiga þrátt fyrir allt peninga í tryggri ávöxtun erlendis og mér finnst það brjálæði að ætla að taka þessa peninga heim við þær aðstæður sem nú eru.

Mér finnst menn vera að búnir að gleyma hlutverki lífeyrissjóðanna í þessu tali um að lífeyrissjóðirnir eigi að gera bæði hitt og þetta. Mig grunar að það sé vegna þess að lífeyrissjóðirnir eru þeir einu sem eiga peninga núna og að þeir eru þeim kostum búnir að það þarf ekki að spyrja eigendur þess leyfis.

Jón Bragi Sigurðsson, 5.7.2009 kl. 13:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband